<$BlogRSDUrl$>

miðvikudagur, júní 30, 2010

Til fyrirmyndar

Ég ætlaði svo að muna eftir að fylla út Til fyrirmyndar bréfið sem barst á öll heimili, en að sjálfsögðu tókst mér að gleyma því! Það eru þó margir sem ég tek mér til fyrirmyndar í mínu lífi og ber mikið þakklæti til. Ég ætla því bara í staðinn að birta hér þá sem eru mér efst í huga og ég ber mikið þakklæti til. Ég vil þó taka fram að þetta er engan veginn tæmandi listi...

Pabbi og mamma

Foreldrar mínir hafa reynt margt í gegnum árin. Alltaf koma þau út standandi í fæturna og með bros á vör. Þau hafa alið upp fjórar heilbrigðar, þenkjandi manneskjur sem láta sig náungann varða og reyna ávallt sitt besta til að gera betur. Pabbi og mamma eiga alltaf lausa stund fyrir þá nánustu, og enda samtöl við þau oftar en ekki með brosi á vör og jafnvel nokkrum hláturrokum. Pabbi og mamma eiga alltaf til hvatningarorð og hvetja okkur systkinin alltaf til að fylgja hjartanu og láta draumana rætast. Ég tek pabba og mömmu mér til fyrirmyndar og vona að ef ég eignast einhverntímann börn, að þá takist mér að standa mig jafn vel í foreldrahlutverkinu og þau! Ég tek einnig mér til fyrirmyndar þeirra viðhorf um að gera betur í dag en í gær.

Amma Rúrý

Einnig þekkt sem Amma Boss! Amma lætur engan vaða yfir sig, hvað þá á skítugum skónum! Amma er með bein í nefinu og lætur ekkert aftra sér frá því að gera það sem hún vill og eiga góðar stundir. Amma kann að skemmta sér og hafa gaman að lífinu. Svo heldur hún sér ungri með því að djamma með barnabörnunum! En að öllu gríni slepptu, þá er amma aðeins þrítug í hjarta sínu þrátt fyrir að búa yfir lífsreynslu áttræðrar konu. Hún á góð ráð og hvatningu í hverju horni og gerir allt sem í hennar valdi stendur til að börnin og barnabörnin hafi það gott. Amma er töffari sem spilar á gítar og tekur bara pásu ef þarf að henda slagsmálahundum útaf balli! Ég tek ömmu mér til fyrirmyndar og vona að ég verði ætíð ung í hjarta, eigi alltaf tíma fyrir fjölskylduna og gleymi því aldrei að við erum hér til að njóta lífsins!

Bræður mínir

Eins og þeir eru ólíkir, þá eiga þeir það allir sameiginlegt að hafa reynst mér góðir kennarar í lífinu. Bræður mínir hafa skoðanir, en þær eru aldrei úr lausu lofti teknar. Ég tek bræður mína mér til fyrirmyndar af mörgum ástæðum, en ástæðan sem mig langar helst að nefna hér er að þeir hafa kennt mér að líta alltaf hlutina frá fleiri en einu sjónarhorni.

Ósk

Án Óskar væri ég ef til vill ekki enn búin að átta mig á að minn heimur hefur aðeins þau landamæri sem ég set upp. Einu takmörkin sem mér eru sett eru hversu stóra drauma mér tekst að dreyma. Ég tek Ósk mér til fyrirmyndar af því að hún býður óttanum birginn og kallar "You only live once" um leið og hún stingur sér í djúpu laugina.

Gígja

Gígja kenndi mér að vera væmin og gráta. Án þess að taka sjálf eftir því, þá hafði ég orðið harðjaxl með árunum og var löngu búin að gleyma hvernig tilfinning það er að þykja vænt um lífið og leyfa sér að gráta. Ég hef einnig lært að kvíði er val og valið er í mínum höndum. Ég tek Gígju mér til fyrirmyndar af því að Gígja kann svo vel að gefa kærleika, deila þekkingu, vera heiðarleg og að vera sönn og heil í öllu því sem hún gerir.

Árdís

Árdís sannar það að þó hörðustu naglar slípist til með árunum, þá halda þeir enn! Ég tek Árdísi mér til fyrirmyndar af því að hún veit hvað hún vill og fylgir hjartanu. Hún er líka einstaklega hugmyndarík og framkvæmir sínar hugmyndir.

Dr. Yogi Vijay Rayal

Reiki meistarinn minn virðist búa yfir þrotlausum brunni af kærleik og visku. Hann leggur allar sínar frístundir í að byggja upp skóla fyrir fátæk börn í sínu héraði. Ég tek meistara minn mér til fyrirmyndar og vona að ég geti gefið jafn mikið til náungans og samfélagsins og hann gerir.

Það eru ótalmargir vinir, samstarfsfólk og fólk sem ég hef kynnst í gegnum tíðina sem ætti skilið að fá sitt nafn nefnt hér. Ég vona því að það móðgi engan að nafn viðkomandi sé ekki hér ritað. Ég tek alla vini mína mér til fyrirmyndar, af mismunandi ástæðum. Þau hafa öll kennt mér einhverja lexíuna og þau eru öll vinir mínir af því að þau skipta mig máli. Ég er þakklát fyrir allt það góða fólk sem er í mínu lífi og ég get tekið mér til fyrirmyndar.

Með kærleik í hjarta,
Helga

|

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Weblog Commenting and Trackback by HaloScan.com