<$BlogRSDUrl$>

föstudagur, nóvember 18, 2005

Minningargrein.

Ég ákvað að setja hérna inn minningargreinina sem ég skrifaði um hana ömmu Siggu.

Það er búið að vera dáldið mikið að gerast hjá mér síðan amma kvaddi okkur þannig að ég er ekkert búin að blogga. Ég á eftir að setja fullt inn, en það verður bara að koma einhverntímann fljótlega ;o)

Heyrumst,
Helga.

|
Elsku amma mín.

Sem ljósgeisli lífsins,
svo undurfagur og ljúfur.
Hamingju og harma reyndir,
heldur þú nú heim á leið.
(Helga Sv.)

Þá er komið að kveðjustund. Af því tilefni langar mig að rifja upp ýmsar góðar minningar.

Þegar amma og afi bjuggu á Heiðmörkinni, kom ég oft við hjá þeim á leiðinni heim úr skólanum. Alltaf var hægt að finna eitthvað skemmtilegt að gera, sama hvort það var að baka með ömmu, hlusta á afa segja sögur, spila við afa og ömmu, fá að fara uppá háaloft, máta þjóðbúninga hjá ömmu eða bara fá að sulla í eldhúsinu hjá henni. Ég á svo margar góðar minningar og fyrir það er ég þakklát. Einnig er ég óendanlega þakklát fyrir allar myndirnar, púðana og sjölin sem amma gerði svo listilega vel. Amma var sannkölluð listakona og á ég eftir að sakna að fara til hennar fyrir jólin til að aðstoða hana við að skera út og innramma myndirnar hennar og skrifa jólakortin.

Amma var alltaf með næmt auga fyrir fallegum hlutum og alltaf þegar maður kom til hennar hafði hún eitthvað að segja um nýju gleraugun, nýju buxurnar eða jafnvel nýju klippinguna.

Allt mitt líf hef ég dáðst að hörkunni og dugnaðinum í ömmu. Oftar en ekki sá maður ömmu þramma um bæinn í allskonar veðrum og á ég seint eftir að gleyma því þegar ég og Hjörtur bróðir vorum á leiðinni heim úr partýi. Klukkan að verða 3 um nótt þegar við löbbuðum upp Bláskógana og sáum ömmu vera að koma heim. Við vorum ekkert smá hissa. Amma að fara heim klukkan 3 um nóttina! Við spurðum ömmu svo að þessu og þá hafði hún verið farin uppí þegar vinkona hennar hringdi í hana og bað hana um að koma að spila og auðvitað dreif amma sig aftur á fætur.

Einnig verð ég að nefna að amma labbaði alltaf "á ská" yfir götur. Svo fór ég í umferðarskóla og eftir það sagði ég alltaf við ömmu þegar hún byrjaði að labba "á ská" yfir götuna; "Amma, veistu ekki að stysta leiðin milli tveggja punkta er bein lína?" Lengi á eftir gátum við hlegið að þessu.

Vinir mínir tala alltaf um ömmu sem ömmu Siggu eins og hún væri amma þeirra. Mér finnst það segja allt sem segja þarf um hjartahlýju ömmu. Enda vorum við barnabörnin ekki aðeins alltaf velkomin til hennar og afa, heldur voru vinir okkar líka alltaf velkomnir.

Elsku amma, takk fyrir allt saman, takk fyrir að vera amma mín. Ég veit að ég á eftir að sakna þín sárt, en þó verður gleðin og væntumþykjan ætíð yfirsterkari. Þú lifir í hjörtum okkar allra.

Sjáumst síðar. Þín,

Helga Sveinsdóttir.

|

miðvikudagur, nóvember 02, 2005

Nýjar myndir

Var að setja inn myndir frá því að ég fór með OgV. til Glasgow í febrúar. Það er semsagt loksins komið í lag að setja inn myndir í tölvuna ;o)

Kv. Helga.

|

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Weblog Commenting and Trackback by HaloScan.com