<$BlogRSDUrl$>

sunnudagur, mars 16, 2008

Komin heim.

Já, við Ósk lentum um 4-leytið í gær, degi of seint, þar sem vélin okkar frá Abu Dhabi til London bilaði og við þurftum að snúa við.

Að vissu leyti er alltaf gott að koma heim, en þetta er í fyrsta skipti á ævinni sem ég finn ekki til léttis yfir því að vera komin heim.

Þetta ferðalag mitt var bara mánuður, en það opnaði augu mín fyrir svo mörgu sem ég hef lokað á í allt of langan tíma. Ég er búin að taka ansi margar ákvarðanir um framtíðina í þessari ferð og er búin að setja mér nokkur markmið. Merki um að vera loksins að "fullorðnast"? Veit ekki, en ég veit núna hvað ég vil. Allavega að lang mestu leiti. Enn nokkrir þættir sem þarf að skoða og taka ákvarðanir um þó.

Það er svo magnað að finna aftur eiginleika hjá sjálfum sér sem voru löngu gleymdir, hálfgerð enduruppgötvun. Sem er sérstaklega merkilegt þar sem ég taldi mig vel vita hver ég væri og hvað ég vildi áður en ferðalagið hófst. Hélt að það eina sem ég þyrfti að ákveða væri hvað ég ætlaði mér að gera í skólamálum. Núna er hinsvegar hausinn á mér fullur af hugmyndum þannig að mín orka mun fara í vinnu, jóga og að sinna listinni, næra hjarta og sál.

Í þessari ferð hefur verið mikið brosað, mikið hlegið og meira að segja nokkur tár felld. Mikið skrifað, skissað, hlustað á tónlist og rætt um tónlist, lesið og lífsspekin rædd.

Lífið er yndislegt. Ekki eyða því í eftirsjá eftir einhverju sem ekki var sagt eða gert. Það hlýtur alltaf að vera meira virði að taka áhættu, fylgja hjartanu og segja eða gera það sem hjartað segir manni að gera eða segja. Þetta er a.m.k. eitt af markmiðum mínum. Lagði allt í sölurnar í þessari ferð og fékk það þúsundfalt til baka...

Ást og umhyggja,
Helga.

|

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Weblog Commenting and Trackback by HaloScan.com