<$BlogRSDUrl$>

sunnudagur, mars 18, 2007

Lífið er skrítið

...og við fólkið líka. Verð bara að segja að það er frekar óþolandi þegar manni líður allt í einu eins og maður sé eitthvað tregur eða vitlaus af því að maður skilur ekki einhverjar aðstæður eða einhvern annan aðila.

Ég var einmitt að hugsa dáldið um þetta í gær. Ég er t.d. búin að ganga í gegnum ansi miklar breytingar á mínu lífi síðan í júlí í fyrra. Í þessu ferli er ég búin að uppgötva að það er ýmislegt sem ég hef aldrei áður þurft að velta fyrir mér þannig að ég þekkti sjálfa mig ekki jafn vel og ég hélt. Mér fannst það bara ágætt, aldrei slæmt að taka sjálfan sig í smá naflaskoðun. Það er samt hægt að eyða endalausum tíma í að pæla í af hverju þetta er svona en ekki hinsveginn o.sv.frv. en ég ákvað að ég nennti því ekki. Er því búin að halda bara áfram ótrauð staðráðin í að læra af því að reka mig á veggi. Vil frekar lifa lífinu og mistakast öðru hvoru frekar en að vera í endalausum pælingum um hver ég er og hver ég vil vera.

Mér er strax búið að takast að reka mig á þó nokkra veggi og það getur verið sárt, svekkjandi og/eða óþægilegt en það skiptir ekki máli. Eftirá er ég reynslunni ríkari og ég verð bara að segja að það er margt búið að koma upp á yfirborðið sem hefur komið mér mikið á óvart og ýmsir hlutir sem er greinilegt að ég þarf að laga. Stundum vildi ég því óska þess að ég hefði meiri tíma. Heilabrot mitt þessa dagana er því, hvernig fer ég að því að laga þessa hluti án þess að taka tíma frá einhverju öðru sem ég geri? Fyrsta sem ég hugsaði var; vinnutörnin verður bráðum búin, get pælt í þessu þá. Gerði mér svo strax grein fyrir að ef ég geri þetta ekki núna, þá geri ég það aldrei.

Einu sinni fór ég alltaf með bænir fyrir svefninn, meira af umhyggju minni fyrir velferð fjölskyldu minnar en af kristilegri rækni, og yfirleitt endaði ég á að biðja "góður Guð, gefðu mér að vera betri manneskja á morgun en ég var í dag." Held að þetta sé í raun bara önnur útgáfa af því að reka sig á veggi og læra, kannski saklausari og fallegri útgáfa, en ég held í alvörunni að þetta sé málið.

Ég ætla því að halda áfram að vera steikt, klikkuð, Scary boss, Nasistinn, óákveðin, hress, djammari, með límheila á skrýtnar upplýsingar, vinur vina minna, vinnualki, óljós og hvaða lýsingarorð og viðurnefni, góð eða slæm, sem gætu átt við mig því það er allt í lagi. Þetta er ég og ég sætti mig við það. Ég sætti mig við að læra af mistökunum og vona bara að ég verði betri manneskja með hverjum deginum fyrir vikið :)

Kveðja, Helga.

|

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Weblog Commenting and Trackback by HaloScan.com