<$BlogRSDUrl$>

þriðjudagur, apríl 05, 2005

Leti

Ég nenni engu þessa dagana. Ég nenni ekki einu sinni út að reykja í vinnunni og þá er nú mikið sagt. Ég er t.d. alls ekki að nenna að blogga núna, mér finnst bara svo alltof langt síðan ég bloggaði síðast.

Páskarnir einkenndust líka af letilífi. Ég fór nú samt á föstudaginn langa í partý til Helgu Daggar og Ingó og drakk ansi mörg skot og eitthvað af bjór. Á laugardeginum mundi ég svo af hverju ég hætti að drekka bjór.

Á laugardeginum mætti ég svo aðeins einum og hálfum tíma of seint í afmæli hjá Lilju Rún (bjórinn sko). Hún er alltaf sama krúttið og hafði alveg jafn gaman af að lesa kortin eins og að opna pakkana. Samkvæmt hennar lestri stóð t.d. á einu kortinu: "Ammæli, tveggja ára. Til hamingju." -Ótrúlega krúttlegt.

Á páskadag var ég hjá pabba og mömmu og fékk spes eldað fyrir mig hamborgahrygg á meðan þau borðuðu hangikjöt. Alltaf sami lúxusinn á Hótel Mömmu ;o) Um kvöldið fór ég svo í vinnu-partý hjá Atla. Var ennþá eitthvað hálfskrýtin í maganum eftir bjórinn þannig að ég var ekkert sérstaklega öflug í drykkjunni, sem var líka bara ágætt. Var komin heim rúmlega 4 sem var bara mjög fínt. Ég var líka mjög fegin að hafa loksins einhvern til að deila leigubíl með í Hafnarfjörðinn. Komst að því að hann Gulli, sem ég var samferða í leigubíl, er systursonur Ossa á Bíl-X og hann var oft á sumrin hjá afa sínum og ömmu í Hveró. Ég verð alltaf jafn hissa á því hve lítill heimurinn er. Verð líka að koma því að hversu frábært það var að fá páskafrí. Ég held bara svei mér þá að ég hafi ekki verið í páskafríi síðan í 10. bekk í grunnskóla.

Á föstudaginn síðasta fór ég svo með Kötu á upptökur á Það var lagið með Hemma Gunn. Þar hitti ég Jenný, mömmu hennar Erlu, og Ellu og fleiri Hvergerðinga. Í þessum þætti voru Ríó Tríó gaurarnir að keppa á móti Steina í Dúmbó og Stefáni í Lúdó. Þetta var bara nokkuð skemmtilegt, hafði samt oft á tilfinningunni að ég og Kata værum einu úr okkar liði sem vorum að fagna :o)

Á morgun er ég svo að fara á eitthvað Nokia kvöld á Nordica Hotel. Held þetta sé einhver kynning á nýjungum og eitthvað fleira skemmtilegt.

Heyrumst, Tíkin.

|

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Weblog Commenting and Trackback by HaloScan.com