<$BlogRSDUrl$>

fimmtudagur, desember 23, 2004

Rólegt í vinnunni.

Svo rólegt að ég ákvað að lesa gömul blogg. Þegar ég var að fara í gegn um þetta sá ég að ég var aldrei búin að skrifa neitt um Spánar-ferðina okkar í sumar. Ég get stundum verið soddan tossi ;) Ég þyrfti kannski að fara að setja hérna inn myndirnar úr ferðini og setja þá kannski í leiðinni smá ferðasögu.

Í dag átti ég pantaðan tíma hjá Sólveigu í litun og plokkun kl 14:30. Elsku litli snillingurinn minn, hann Jón Heiðar, fór á bílnum í vinnuna í morgun og þegar hann kom heim í hádeginu þá gleymdi hann að slökkva ljósin á bílnum :/ Þegar við ætluðum svo að fara til Sólveigar þá var bíllinn svo gjörsamlega rafmagnslaus að við gátum ekki einu sinni látið hann renna í gang! Ég semsagt þurfti að afpanta tímann minn, það voru mikil vonbrigði. Reyndar er Sólveig svo yndisleg að hún bauð mér að hringja í sig á morgun til að athuga hvort hún hafi tíma til að lita mig og plokka bara heima. Vona að ég hafi tíma til þess, annars þarf ég að reyna að komast milli jóla og nýárs og ég er ekki alveg að nenna því.

Á sunnudaginn fórum við Jónki í Smáralindina að kaupa síðustu gjafirnar og kjól handa mér. Við snillingarnir ætluðum svo að fara í sitthvora áttina að kaupa gjöf handa hvort öðru. Það fór ekki betur en svo að við enduðum í sömu búðinni og ég labbaði inn akkúrat þegar Jónki var að spyrja um gjöfina sem hann ætlaði að gefa mér :) Reyndar var hún uppseld þannig að hann getur hvort sem er ekki gefið mér hana, þannig að kannski var þetta ekki svo mikill skaði eftir allt. Það endaði svo með að ég fór bara í gær og keypti gjöf handa Jónka og hann fór í dag að kaupa handa mér. Hmmm... hvað skyldi ég fá? ;)

Í gær ákvað ég að gera jólakonfekt sem ég ætla að láta fylgja 3 pökkum. Mig minnti að það kæmi ekki svo mikið úr hverri uppskrift þannig að ég ákvað að gera fjórfalda uppskrift, þá ætti ég kannski líka smá í afgang handa mér og Jónka. Við erum að tala um það að þegar ég var búin að troðfylla dallana sem ég ætla að gefa þetta í, þá á ég eftir fullt risa plastbox og 1 glerkrukku af konfekti eftir! Vona að það kíki einhver í heimsókn um jólin svo við borðum þetta ekki allt sjálf.

Í dag fékk ég svo jólagjöfina mína frá Og Vodafone. Þetta er risa kassi með rauðvínsflösku, 2 vínglösum, mozarellaosti, gæsapaté, baguette brauði, súkkulaði, parma skinku og fleira og fleira. Þannig að ég endurtek; eins gott að einhver komi í heimsókn um jólin :)

Kjaftatíkin kveður að sinni og óskar öllum lesendum gleðilegra jóla.

|

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Weblog Commenting and Trackback by HaloScan.com